24 Júní 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktanir í tveimur húsum í miðborginni eftir hádegi í gær. Á öðrum staðnum fundust líka ýmsir munir sem grunur leikur á að séu þýfi og var karl á fertugsaldri handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Á hinum staðnum var jafnframt lagt hald á amfetamín og marijúana en karl á þrítugsaldri var yfirheyrður vegna málsins. Síðdegis handtók lögreglan liðlega fimmtugan mann í austurborginni en sá var með fíkniefni í fórum sínum. Í framhaldinu var framkvæmd húsleit í sama hverfi hjá karli á svipuðum aldri en hjá honum fannst nokkuð af fíkniefnum, bæði amfetamín og marijúana, og var viðkomandi sömuleiðis handtekinn. Nokkru síðar hafði lögreglan afskipti af manni á sextugsaldri en sá var stöðvaður á Laugavegi og reyndist vera með amfetamín meðferðis.