Upplýsingar fyrir þá sem sæta bakgrunnsathugun

Ríkislögreglustjóri er ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga vegna bakgrunnsathugana vegna flugverndar, sbr. lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Lögreglan á Suðurnesjum er vinnsluaðili persónuupplýsinga vegna bakgrunnsathugana vegna flugverndar og fer með fram­kvæmd bakgrunnsskoðana í umboði ríkislögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 26. gr. reglugerðar um flugvernd ­nr. 750/2016, sbr. 10. mgr. 70. gr. a. laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

Bakgrunnsathuganir lögreglu vegna flugverndar eru framkvæmdar á grundvelli 70. gr. c. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum, og sbr. reglugerð um flugvernd­ nr. 750/2016.

Upplýsingaöflun: Með bakgrunnsathugun er átt við skoðun á bakgrunni einstaklings, allt að 5 ár aftur í tímann frá dagsetningu beiðni, sem starfa sinna vegna þarf aðgang að viðkvæmum upplýsingum um flugvernd­ eða heim­ild til að sækja námskeið í flugverndarþjálfun eða aðgangs að haftasvæðum, svo unnt sé að leggja mat á hvort heimila eigi viðkomandi slíkan aðgang.

Í bakgrunnsathugun felst skoðun á upplýsingum um viðkomandi í skrám lögreglu, sakavottorði, upplýsinga­kerfi Interpol, Þjóðskrá, hjá tollyfirvöldum, héraðs­dómstólum og eftir atvik­um í öðrum opinberum skrám eða hjá erlendum yfirvöldum.

Vöktun í LÖKE: Lögregla hefur eftirlit með skráningum bakgrunnsathugaðra einstaklinga í málaskrá lögreglu (LÖKE), meðan þeir gegna þeim störfum sem krefjast bakgrunnsathugana vegna flugverndar.

Niðurstaða bakgrunnsathugana er gefin í formi umsagnar. Standist viðkomandi bakgrunnsathugun er honum veitt jákvæð umsögn, standist hann ekki bakgrunnsathugun er honum veitt neikvæð umsögn.

Framkvæmd bakgrunnsathugunar er háð samþykki þess aðila sem sætir bakgrunnsathugunar, sbr.:

    • mgr. 70. gr. a. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum,
    • mgr. 25. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 750/2016,
    • gr laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Vanda skal útfyllingu eyðublaðsins. Skortur á upplýsingum sem taka þarf fram eða misræmi í upplýsingum, getur tafið afgreiðslu umsóknar, haft áhrif á trúverðugleika viðkomandi og niður­stöðu bakgrunnsathugunar, þ.m.t. ákvörðun um umsögn.

Afgreiðsla umsóknar getur tekið allt að þremur mánuðum. Upplýsingar um beiðnir í vinnslu eru ekki veittar á afgreiðslu­tíma.

Komi fram neikvæðar upplýsingar við bakgrunnsathugun er viðkomandi send tilkynning um fyrirhugaða neikvæða umsögn og honum gefinn kostur á andmælum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kann viðkomandi að vera kallaður í öryggisviðtal. Sé endanleg niðurstaða að veita viðkomandi neikvæða umsögn er honum sent erindi þar um ásamt upplýsingum um kæruheimild til ráðherra. Umsækjanda bakgrunnsathugunar er einnig send tilkynning um neikvæða umsögn en án ástæðu eða útskýringa.

Um upplýsingarétt þess sem sætir bakgrunnsskoðun um aðgang að upplýsingum um hann sjálfan fer samkvæmt. 17. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018 og ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á vinnslu þeirra upplýsinga sem gefnar eru upp á eyðublaði þessu, skulu upplýsingarnar því eingöngu notaðar af lögreglu í þeim tilgangi sem tilgreindur er, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.