Þjónustugátt lögreglunnar  

Þjónustugátt lögreglu er samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og embættis ríkislögreglustjóra. Markmið síðunnar er að bæta þjónustu og auka upplýsingagjöf til þolenda kynferðisbrota eldri en 18 ára. 

Þegar brotaþoli hefur kært afbrot til lögreglu fer af stað flókið og stundum langt ferli. Markmið þessarar síðu er að veita upplýsingar til brotaþola við þeim spurningum sem þeir hafa um meðferð máls, veita upplýsingar um aðrar stofnanir og samtök sem hægt er að leita til og veita upplýsingar um feril máls, núverandi stöðu máls og bera saman við önnur sambærileg mál. Þá getur brotaþoli nálgast upplýsingar um tengiliði málsins og um þá tíma sem eru bókaðir. 

 

Ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga 

Þjónustugátt lögreglu er öruggt vefsvæði þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um brot sem kærð hafa verið til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ábyrgðaraðili þeirra upplýsinga sem veittar eru á síðunni. Embætti ríkislögreglustjóra er ábyrgðaraðili öryggis og hýsingu vefsvæðisins sem og þeim upplýsingum sem verða til við notkun síðunnar.  

 

Hvaða upplýsingar eru aðgengilegar á Þjónustugátt lögreglu og um vinnslu persónuupplýsinga?  

Upplýsingar sem birtast í þjónustugátt lögreglu eru sóttar úr miðlægu upplýsingakerfi lögreglu, LÖKE. Þær upplýsingar sem eru aðgengilegar brotaþola eru málsnúmer, staða máls og tímabókanir. 

Þær upplýsingar sem finna má á Þjónustugátt lögreglu eru vistaðar á vefsvæði lögreglu.  Gögnin eru dulkóðuð og aðeins sýnileg brotaþola við rafræna auðkenningu.  

Nafn og kennitala eru nýtt til þess að hægt sé að bjóða þjónustuna og til þess að tryggja virkni vefsíðunnar, s.s. til öruggrar auðkenningar. 

Nauðsynlegar vefkökur eru notaðar til að virkja eiginleika á vefsvæðinu sem verða að vera til staðar svo hægt sé að nota vefsíðuna eins og til er ætlast, t.d. við rafræna auðkenningu.  Vefkökur eru litlar textaskrár sem vistaðar eru á tölvu eða öðrum snjalltækjum þegar vefsvæðið er heimsótt.  

 

Ábendingar og fyrirspurnir 

Boðið er uppá að senda tölvupóst með athugasemdum og ábendingar um þjónustugáttina á netfangið fyrirspurnir.gatt@lrh.is.   

 

Réttindi þín:  

Fyrirspurnum og ábendingum er varða persónuupplýsingar eða persónuvernd er unnt að beina til persónuverndarfulltrúa embættanna með því að senda tölvupóst á netfangið personuvernd@logreglan.is eða í síma 444-2500. Þá er einnig hægt að senda bréfpóst merktan persónuverndarfulltrúa til ríkislögreglustjóra, Skúlagötu 21, 101 Reykjavík.  

Telji einstaklingur að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við þau lög sem um hana gilda getur hann sent erindi til Persónuverndar, sjá nánar www.personuvernd.is  

Nánari upplýsingar er hægt að finna í persónuverndarstefnu lögreglunnar https://www.logreglan.is/personuverndarstefna/