Lögreglu berast reglulega tilkynningar um að fólk sé að fá svokölluð 419 eða Nígeríubréf í bréfpósti eða tölvupósti
Nokkuð er síðan að við höfum séð slíkan bréfpóst enda koma þau oftast í tölvupósti. Hér hafa svindlararnir ákveðið að leggja upp með sæmilega vandað bréf í þeirri von um að sýnast meira traustvekjandi og sem stendur eru báðir sem hafa haft samband við okkur verið Atlason.
Þetta er vel þekkt svindl aðferð. „Traustur“ aðili hefur samband og lofar stórfjárhæð vegna látins fjarskylds ættingja. Hér stendur meir að segja að þetta sé „risk free“, sem er rétt að svo miklu leyti sem varðar svindlarann. Ekki þann sem myndi svara. Gulrótinni um alla þessa peninga yrði haldið á lofti en svindlið felst í að brotaþoli yrði inntur um ýmsar greiðslur til að fá peningana. Lítið í fyrstu en síðan meira og meira.
Lögreglan sér því ástæðu til að vara við þessum og álíka bréfum. Það er aldrei neinn að fara að hafa samband við ykkur af handahófi og gefa stórar upphæðir. Allt slíkt er alltaf svindl.
Ef rennt er í gegn um bréfið þá er haus á því og „confidential“ er stimplað bakvið textanna. Hvort tveggja er merkingarlaust. Hausinn er heldur ekkert merkilegur og tilheyrir engri viðurkenndri stofnun heldur hefur sennilega verið fundinn með google eða álíka. Þá er sett inn nokkur orð sem eiga að vekja traust, British Lawyer, risk free o.s.frv. Það er líka merkilegt að banki hr. Victor Atlason heitir „The Bank“. Brotaþolinn er beðinn um að hafa samband við „lögmanninn“ á uppgefinni gmail netfangi. Það er ótraust. Flestar stofnanir eru með sín eigin lén. Bent hefur líka verið á að bréfið er sent frá Englandi og það er rétt, en það segir okkur ekkert til um hvar svindlarinn er í heiminum.
Slík bréf eru vísvitandi ekki of vönduð, því að svindlararnir vilja alls ekki fá of mikið af svörum. Bréf og tölvupóstar eru hæfilega vitlaus því þannig fækkar þeim sem svara. Við biðjum ykkur að fara varlega og svara aldrei slíkum póstum. Það er aldrei neinn að fara að senda ykkur peninga án tilefnis. Sambærileg svindl eru til dæmis happadrættissvindl þar sem brotaþoli hefur á óskiljanlegan hátt unnið mikið af peningum án þess að hafa keypt nokkurn einasta miða.
Ef þið fáið slíkan póst þá er best að svara aldrei. Ef þið eruð í einhverjum vafa þá megið þið senda okkur fyrirspurn á abendingar@lrh.is Þá þykir okkur vænt um að fá tilkynningar um svindl sem er í gangi til þess að við getum sent út viðvaranir. Gott er að fá skjámyndir eða skannaðar myndir af frumritum.
Farið varlega. Besta vörnin er forvörn.